Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir hann m.a. að kirkjan verði að vera öruggur staður og segja satt til að gegna hlutverki sínu sem þjóðkirkja. „Þess vegna má ekki lengur skrifa kynlífssiðfræði í nafni kristinnar trúar út frá stjórnunarsjónarmiðum. Tíðarandinn er að breytast og guðfræðin þarf að breytast með og svara nýjum spurningum sem snúa fremur að inntaki samskipta en formi þeirra," segir Bjarni sem hefði viljað sjá kirkjuna hafa meira frumkvæði. „Við verðum að taka þetta skref, að leyfa hjónaband samkynhneigðra. Gagnkynhneigðarhyggjan, sem skilgreinir heilu hópana til hliðar við samfélagið, er búin að kosta svo mörg mannslíf, fórnir og þjáningu. Karlaveldiskerfið er útbreiddasta valdakerfi veraldarinnar og þegar dýpst er skoðað er það rekið áfram af óttanum við dauðann. Það er ekki til erfiðari óvinur. Kristin hefð á allt það sem svarar þessu. Þess vegna er það svo mikil fölsun þegar menn leyfa sér að tengja þvingandi hugmyndir sem niðurlægja fólk og gera manneskjur framandi hverja annarri við trúarsetningar kirkjunnar."
Nánar er rætt við Bjarna í Morgunblaðinu í dag.