Ók undir áhrifum fíkniefna - lögregluhundur þefaði upp ólöglega vímugjafa

Lögreglan á Selfossi stöðvaði um eittleytið í dag ungan ökumann á Þrengslavegi vegna hraðaksturs. Grunur um að ökumaðurinn væri undir áhrifum fíkniefna kviknaði þegar lögreglumenn voru að ræða við piltinn, sem er 18 ára gamall. Hann var því fluttur, ásamt bifreiðinni og tveimur farþegum á lögreglustöðina í Selfossi. Þar leiddi frumrannsókn í ljós að ökumaðurinn væri undir áhrifum vímuefna.

Fíkniefnahundur lögreglunnar í Árnessýslu var síðan kallaður til aðstoðar við leit í bílnum. Við leitina beinist áhugi hundsins að öðrum farþeganum og á honum fann lögreglan um 24 grömm af fíkniefnum. Hann var með um 13 grömm af hvítu efni, sem talið er að sé amfetamín eða kókaín, og 11 grömm af því sem talið er vera hass.

Fólkið, tveir menn og stúlka, voru öll handtekin og er verið að yfirheyra þau.

Þá var hafði ökumaðurinn aldrei öðlast ökuréttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert