Sjö manns lentu í snjóflóðinu, sem féll í Hlíðarfjalli ofan Akureyri laust eftir kl. 13 í dag. Fólkið var á ferð skammt neðan fjallsbrúnar þegar flóðið féll. Fram kemur á vefnum snjoflod.is, að enginn hafi meiðst og sjömenningarnir hafi sloppið með skrekkinn.
Á vefnum kemur fram, að fólkið rann á einum stórum snjófleka um 70-80 metra niður brekkuna. Hluti snjóflóðsins fór enn lengra niður.
Að sögn Halldórs Halldórssonar, sem var einn þeirra sem lenti í flóðinu, var töluvert mikill nýr snjór í fjallinu og stór hengja var þar sem vanalega er farið upp á brún fjallsins. Sjömenningarnir voru því á leið suður fyrir hengjuna þegar snjóþekjan brast.
Halldór taldi að brotstálið hafi verið um eða yfir 1 metri á þykkt og breiddin gæti hafa verið um 100 metrar. Hann lýsti snjóþekjunni þannig að nýr snjór hafi verið niður í allt að hnédýpi en þar fyrir neðan virtist vera hjarnskán eða skel og þar undir mýkri og veikari snjór.