Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur dæmt karlmann í 250 þúsund króna sekt fyrir að hafa barnaklám undir höndum. Einnig var tölva og harður diskur gerð upptæk auk þess sem maðurinn þurfti að greiða sakarkostnað.
Málið kom upp í nóvember 2005 þegar ríkislögreglustjóra bárust upplýsingar frá Interpol um að verið væri að rannsaka birtingu barnakláms á internetinu. Rannsókn málsins erlendis beindist að myndskeiði sem kallaðist Max og innihélt barnaklám en það var hægt að nálgast og hlaða niður af vefsíðunni loli.dorki.info. Rannsókn Interpol hafði leitt í ljós að tölva með IP-tölu sem rakin var til umrædds manns hafði verið notuð til að hlaða niður myndbandi þessu.
Gerð var húsleit á heimili mannsins og fundust í tölvu hans 54 ljósmyndir og eitt myndband sem skilgreid voru sem barnaklám. Ljósmyndunum hafði verið eytt af tölvunni en með sérstöku tölvuforriti tókst að endurheimta þær. Myndbandinu hafði hins vegar ekki verið eytt. Myndbandið, sem varð tilefni rannsóknar á tölvunni, fannst hins vegar ekki.
Í niðurstöðu dómsins segir, að við ákvörðun refsingar beri að horfa til þess að maðurinn hafi ekki áður sætt refsingu og einungis fjórar til sex af ljósmyndunum geti talist grófar án þess þó að þar sé um myndir af alvarlegustu gerð að ræða. Þá sé myndskeiðið heldur ekki verulega gróft.