Fimmtíu ökumenn voru stöðvaðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um hvítasunnuhelgina. Tveir karlmenn, sem áður hafa verið staðnir að umferðarlagabrotum, voru teknir fyrir ofsaakstur og voru þeir sviptir ökuréttindum til bráðabirgða.
Nítján ökumenn voru teknir grunaðir um ölvunarakstur og tveir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Þá stöðvaði lögreglan sjö ökumenn sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi en fjórir þeirra gerðust nú sekir um þetta brot öðru sinni. Sex aðrir ökumenn sem voru stöðvaðir í umferðinni um helgina höfðu aldrei öðlast ökuréttindi en einn þeirra virðist leggja þetta í vana sinn.
Sextíu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar um helgina, flest minniháttar. Tveir voru teknir fyrir að aka á nagladekkjum og þá stöðvaði lögreglan þrettán ökumenn sem óku gegn rauðu ljósi.