Allt útlit er fyrir að fari að hlýna verulega á landinu - að minnsta kosti í bili - segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Á blogginu hans kemur fram, að hlýindi austan úr Rússlandi muni væntanlega ná að teygja sig til Íslands er nær dregur helginni, og má þá búast við hitatölum vel á annan tuginn.
Einar segir ennfremur að tíðarfarsspá fyrir sumarmánuðina bendi hvorki til þess að það verði afgerandi hlýtt né afgerandi kalt; að öllum líkindum verði það á heildina litið í meðallagi. Ekki sé hægt að segja fyrir um hvernig veðrið muni sveiflast í sumar, hvenær nákvæmlega verði hlýtt og hvenær heldur kaldara.