Impregilo segist ekki mismuna fólki í launum

Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fjallað er um ýmsar ásakanir, sem komið hafa fram síðustu daga frá Portúgölum, sem starfa hafa við Kárahnúkavirkjun. Segir Impregilo m.a., það sé algjörlega rangt að fyrirtækið mismuni fólki með launagreiðslum og enginn fái meira eða minna greitt fyrir sömu vinnu.

Þetta hafi forsvarsmenn verkalýðsfélagana ítrekað staðfest og þeir hafi aðgang að bæði launaútreikningum og launaseðlum starfsmanna Impregilo.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Undanfarna daga hafa íslenskir fjölmiðlar fjallað um ásakanir fyrrum starfsmanns við Kárahnjúka , er lúta að aðbúnaði verkamanna þar. Umræddur starfsmaður starfaði við gangnagerð á virkjunarsvæðinu fyrr í þessum mánuði - í tæpar tvær vikur. Á meðal þess sem fyrirtækinu er gefið að sök er að búa illa að starfsfólki sínu, að aðstæður séu frumstæðar og að þjóðerni starfsmanna skipti máli hvað varðar kaup og kjör.

    Til þess að leiðrétta þær rangfærslur sem fram hafa komið, vill fyrirtækið koma eftirfarandi á framfæri:

    Laun
    Það er algjörlega rangt að fyrirtækið mismuni fólki með launagreiðslum. Enginn fær meira eða minna greitt fyrir sömu vinnu – það sama gengur yfir alla. Laun eru byggð á þeim töxtum sem íslensk verkalýðsfélög hafa samið um við aðila vinnumarkaðarins. Forsvarsmenn verkalýðsfélagana hafa ítrekað staðfest þetta og hafa aðgang að bæði launaútreikningum og launaseðlum starfsmanna Impregilo.

    Vinnutíminn
    Að segja að starfsmenn við Kárahnjúka vinni 14 tíma vaktir er í besta falli misvísandi, í versta falli rangt. Við Kárahnjúka er vinnan skipulög í tvær til þrjár vaktir á dag, allt eftir því hversu langt í burtu vinnustaðurinn er frá svefnskálum starfsmanna. Hér ber þó að geta þess sérstaklega að göngin sem sumir starfsmenn vinna inni í eru 50 kílómetra löng. Sökum vegalengdarinnar eru ferðalög inn í göngin tímafrek og geta lestaferðir orðið, samanlagt, allt að þriggja tíma langar til og frá vinnustaðnum. Þessu til viðbótar má bæta við allt að tveggja tíma langri rútuferð frá svefnskálunum að gangnamunnanum. Ferðalög fyrir einstaka verkamenn geta því orðið allt að fimm klukkustundir á einum vinnudegi. Þetta á þó aðeins við í einstökum tilfellum. Verkamenn þiggja laun á meðan ferðalögunum stendur. Yfirvinna er greidd þegar það á við.

    Vatn í göngunum
    Allir sem hafa unnið við gangnagerð vita að vatnsrennsli í slíkum göngum getur verið umtalsvert. Í göngunum við Kárahnjúka eru – og hafa verið frá upphafi starfseminnar – öflugar dælur sem draga verulega úr rennsli vatns á vinnusvæðum. Engu að síður er ómögulegt að búa svo um hnútana að alls ekkert vatn renni í göngunum. Á þeim örfáu stöðum þar sem vatn er allt að hnédjúpt vinna starfsmenn í vöðlum og eru klæddir í ullarnærföt.

    Máltíðir í göngunum
    Mötuneytin við Kárahnjúka eru alls fjögur og þar er fólk að störfum 20 tíma á dag. Frá upphafi hafa verið útbúnar yfir 3.5 milljónir máltíða fyrir starfsmenn Impregilo og undirverktaka. Á nokkrum vinnustöðum við Kárahnjúka er ómögulegt að flytja starfsmenn í mötuneyti á matmálstímum. Slíkt myndi hafa í för með sér gríðarlega truflun á vinnunni, sökum þess langa tíma sem færi í ferðalög á milli staða. Í þeim tilfellum sem þetta á við, er aðeins um eina máltíð á dag að ræða, sem snædd er inni í göngunum. Maturinn sem um ræðir er sá hinn sami og útbúinn er í mötuneytum við Kárahnjúka. Maturinn er fluttur í hitapakkningum á vinnusvæðið og berst starfsmönnum heitur.

    Maturinn sem er í boði
    Við Kárahnjúka starfar fólk frá 32 þjóðlöndum. Reynt er að tryggja fjölbreytileika í mötuneytum fyrirtækisins, svo allir geti vel við unað. Meginreglan er að tryggja að maturinn sé næringarríkur, í nægu magni fyrir hvern og einn og að fólk geti valið úr nokkrum möguleikum. Matreiðslumenn fyrirtækisins eru meðal annars frá Ítalíu, Kína, Indlandi og Tyrklandi.

    Aðstæður í göngunum
    Aðstæður við Kárahnjúka er mjög erfiðar og alls ekki fyrir hvern sem er. Starfsmenn þurfa því að geta aðlagast erfiðum aðstæðum, sem mörgum reynist erfitt. Fyrirtækið kappkostar þó að betrumbæta aðstæður þar sem því verður viðkomið og tryggja öryggi starfsmanna sinna. Öllum starfsmönnum er útvegaður allur sá búnaður sem nauðsynlegur er, þar með talinn besti öryggisbúnaður sem völ er á. Aðbúnaður starfsmanna uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til fyrirtækisins af íslenskum stjórnvöldum. Að mörgu leyti gengur fyrirtækið mun lengra en lögin kveða á um hvað varðar aðstæður og aðbúnað, en umhverfis- og starfsmannastefna fyrirtækisins gengur að nokkru leyti lengra en íslensk lög og reglugerðir.

    Mengun í göngum
    Fylgst er afar vel með mengun í göngunum. Þegar mengun fer tímabundið yfir viðmiðunarmörk er gripið strax til aðgerða. Stundum er skyggni takmarkað í göngunum sökum „þoku“ sem getur myndast á nokkrum stöðum, sökum þess að hitamunur þéttir raka í loftinu.

    Vinna á frídögum
    Stundum er unnið á sunnudögum og almennum frídögum. Þegar unnið er á slíkum dögum geta starfsmenn valið það sjálfir hvort þeir vilji vinna eða ekki. Hærra kaup er greitt fyrir vinnu á frídögum og helgidögum, rétt eins og kveðið er á um í kjarasamningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert