Rósa Björk Þórólfsdóttir varð dúx við Menntaskólann við Hamrahlíð. Hún lauk námi til stúdentsprófs af náttúrufræðibraut á þremur árum og fékk 9,86, sem er hæsta meðaleinkunn stúdents frá MH.
Rósa þakkar áfangakerfinu skjóta námsframvindu. Áfangana tók hún á hefðbundnum önnum. Hún kvaðst hafa valið hraðferðir og eins skylduáfanga sem ekki kröfðust tímasóknar. Rósa valdi aðallega stærðfræði og efnafræði í kjörsvið. En þurfti hún ekki að leggja mikið á sig?
"Jú, en ég er vön hafa mikið að gera og vil gjarnan hafa mikið að gera. Þetta var passlegt fyrir mig," sagði Rósa hógvær. Með skólanum æfði hún frjálsar íþróttir hjá Ármanni og kvaðst eiga góðan vinahóp sem hefði sýnt sér mikla þolinmæði.
Rósa stefnir á að taka inntökupróf í læknadeild Háskóla Íslands í júní og fara í málaskóla á Spáni í sumar. Hún er þó ekki alveg ákveðin í hvað hún tekur sér fyrir hendur. „Ég ætla að hugsa málið í sumar og sjá hvað kemur út úr inntökuprófinu. Stærðfræðin vekur mikinn áhuga, en ég hef líka mikinn áhuga á að starfa við heilbrigðisgeirann," sagði Rósa.
Þegar horft er um öxl telur Rósa að fyrsta önnin hafi verið erfiðust; að koma í nýjan skóla og þurfa að finna sig, bæði námslega og félagslega. „Sem betur fer gekk það glimrandi vel og nú er ég að kveðja MH með miklum söknuði. Þetta voru frábær ár," sagði Rósa.
Á laugardaginn var brautskráðust 154 stúdentar frá MH. Semidúx var Birna Þórisdóttir, stúdent af náttúrufræðibraut eftir þriggja ára nám með 9,59. Einingadúx var Alissa Rannveig Vilmundardóttir, stúdent af félagsfræðabraut, málabraut og náttúrufræðibraut með samtals 202 einingar. Alls luku tíu nemendur stúdentsprófi við MH að þessu sinni með ágætiseinkunn.