Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur sektað tvo menn um samtals 350 þúsund krónur fyrir að hafa staðið fyrir áfengisveitingum gegn gjaldi á skemmtistað á Sauðárkróki nokkur kvöld í mánuði á árunum 2004 til 2006 án þess að hafa áður aflað sér lögboðins vínveitingaleyfis. Talsvert magn af áfengi var einnig gert upptækt.
Annar maðurinn var einnig sakfelldur fyrir að hafa látið birta í héraðsdagskránni Sjónhorninu auglýsingu um keppni í áfengisdrykkju á skemmtistaðnum Bar-inn á Sauðárkróki og í umræddri keppni veitt umtalsvert magn áfengis gegn gjaldi til 3 einstaklinga sem ekki höfðu náð 20 ára aldri og tóku þátt drykkjukeppninni.
Keppnin fólst í því hver keppenda gæti innbyrt flest Ópal- eða Tópas-vodkaskot með 27% vínandastyrkleika. Afleiðingarnar urðu þær að unglingarnir þrír voru fluttir á sjúkrahús vegna ofneyslu áfengis.