Horfur eru á að kosið verði á milli tveggja formannskandídata í Landssambandi eldri borgara (LEB) á landsþingi sambandsins á Akureyri um næstu helgi. Ólafur Ólafsson formaður og Helgi K. Hjálmsson varaformaður gefa báðir kost á sér.
Ólafur sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði verið að hugsa um að láta af formennsku en ýmislegt hefði orðið til þess að hann hygðist nú gefa kost á sér til áframhaldandi setu.
„Í fyrsta lagi vil ég gjarnan fylgja því eftir sem við höfum náð fram," sagði Ólafur. „Í öðru lagi hefur framkvæmdastjórinn ekki hagað sér eins og ég vil. Hann veður yfir fólk og skiptir sér af málum sem hann á ekki að skipta sér af."
Aðspurður hvort rétt væri að Borgþór Kærnested, framkvæmdastjóri LEB, hefði meinað Ólafi aðgang að skrifstofu LEB sagði Ólafur að hann hefði reynt það. Ólafur kvaðst hafa getað útvegað lykil að skrifstofunni og komist þar inn.
Helgi K. Hjálmsson sagði að kjörnefnd hefði leitað til sín í janúar sl. og spurt hvort hann vildi gefa kost á sér til formennsku. „Ég sagði já, en tók fram að ég myndi ekki fara í slag við Ólaf Ólafsson. Síðan gaf Ólafur það út að hann ætlaði ekki að fara fram. Svo skipti hann um skoðun og það er hans mál. Það hefur hver og einn leyfi til að bjóða sig fram til formanns," sagði Helgi. Hann sagði að kjörnefnd væri einnig búin að stilla upp 20 manna sambandsstjórn sem kýs framkvæmdastjórn, en formaður er kjörinn sérstaklega.
Helgi sagði að sig langaði að vera formaður. Hann vill vinna að því að styrkja innviði landssambandsins og styðja við aðildarfélögin. Sömuleiðis vill hann láta ríkisstjórnina standa við stóru orðin og fylgja þeim eftir. „Við gefum ekkert eftir í kjarabaráttunni," sagði Helgi. Hann kvaðst hafa átt gott samstarf við framkvæmdastjóra LEB og taldi að hann sinnti sínu starfi afskaplega vel.
Í dag verður fundur í framkvæmdastjórn LEB þar sem farið verður yfir málefni landsþings. Á landsþingið mæta um 100 fulltrúar 53 félaga eldri borgara og eru í þeim um 18 þúsund félagsmenn.