Umferð var þung á Vesturlands- og Suðurlandsvegi í gær, þegar ferðalangar héldu heim á leið eftir hvítasunnuhelgina. Varðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var ánægður með helgina sem að hans sögn gekk stórslysalaust fyrir sig.
Umferð tók að þéttast upp úr hádegi í gær og náði hámarki um miðjan dag. Hún fór svo að minnka jafnt og þétt um kvöldmatarleytið. Hraðakstur var ekki mikill í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem var með hraðamælingarhjól bæði á Vesturlands- og Suðurlandsvegi.