Samningur milli Samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar tveggja aldurshópa var samþykktur í pótskosningu meðal félagsmanna í Tannlæknafélaginu. Samningurinn tekur gildi 1. júní.
Um er að ræða samning um tannlæknaþjónustu og forvarnarskoðana 3ja og 12 ára barna. Samkvæmt samningnum mun skráning tannheilsu þessara barna verða með svipuðu fyrirkomulagi og gerist annars staðar á Norðurlöndunum og mun Miðstöð tannverndar taka við skráningargögnum og sjá um alla úrvinnslu þeirra.
Á kjörskrá Tannlæknafélagsins voru þrjúhundruð tuttugu og átta tannlæknar. Eitthundrað sjötíu og níu tannlæknar eða 55% af félögum Tannlæknafélags Íslands tóku þátt í póstkosningunni. Já, sögðu 109 eða 61% og samþykktu þar með samninginn. Meirihluta þátttakenda í póstkosningu þurfti til að samningur væri samþykktur fyrir hönd félagsins. Starfandi tannlæknar á Íslandi eru 284.
Í tilkynningu frá Tannlæknafélaginu kemur fram, að í samræmi við reglur póstkosningarinnar hafi öllum kjörgögnum verið eytt, undir umsjón og á ábyrgð fulltrúa sýslumanns, nema undirskrift frá þeim sem gerðust aðilar að samningnum í póstskosningunni. Tannlæknar geta gerst aðilar að samningnum hvenær sem er á samningstímanum sem er til 31. desember 2008.