Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði og Einar Skúlason, forstöðumaður Alþjóðahúss, skrifuðu í dag undir samning um Þjóðahátíð sem í ár verður haldin í Hafnarfirði sem liður í lista- og menningarhátíðinni Björtum dögum sem hefst á fimmtudaginn.
Bjartir dagar, lista- og menningarhátíð Hafnarfjarðar er nú haldin í fimmta sinn. Þeir byrja með krafti með útitónleikum á Thorsplani þar sem fram koma Magni, þrumukettir, Sign og Mínus auk þess sem fyrsta daginn verður valinn bæjarlistamaður Hafnarfjarðar og veittir tveir hvatningarstyrkir.
Stór hluti hátíðarinnar er ætlaður börnum og unglingum. Leik- og grunnskólabörn eiga stóran þátt í Björtum dögum, þau skreyta fyrirtæki og stofnanir og ljóðin þeirra mæta okkur á gangi um bæinn. Þá má nefna danssýningu, myndlistarsýningar, fjölda tónleika af öllu tagi, brúðuleikhús og unga fólkið skipuleggur sjálft sína eigin listahátíð og fer sú dagskrá öll fram í Gamla bókasafninu. Bjartir dagar standa frá 31. maí til 10. júní.