Flest umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæði verða á Reykjanesbraut

Reykjanesbraut.
Reykjanesbraut. mbl.is/Árni Torfason

Reykjanesbraut, Miklabraut, Bústaðavegur, Hringbraut og Vesturlandsvegur eru þær götur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem mest hefur verið um umferðaróhöpp það sem af er þessu ári.

Fyrstu fjóra mánuði ársins urðu 105 umferðaróhöpp á Reykjanesbraut sem er fjölgun frá sama tíma og í fyrra er 92 óhöpp voru skráð. Miklar framkvæmdir hafa verið í götunni, sem kunna að skýra þessa aukningu að einhverju leyti, að sögn lögreglu.

Næstflest umferðaróhöpp áttu sér stað á Miklubraut en fjöldi þeirra frá ársbyrjun og til aprílloka er nánast sá sami og sömu mánuði í fyrra, um 100. Á Hringbraut eru tölurnar líka eins á milli ára en jafnmörg umferðaróhöpp voru tilkynnt fyrstu fjóra mánuðina 2007 og 2006, eða 73. Á Vesturlandsvegi hafa orðið 74 umferðaróhapp en þau voru 99 á sama tímabili í fyrra. Segir lögreglan, að væntanlega megi rekja þessa góðu útkomu til úrbóta á Vesturlandsvegi, þ.e. tvöföldun og fjölgun hringtorga.

Á Bústaðavegi hefur umferðaróhöppum fjölgað um liðlega helming á umræddu tímabili. Fyrstu fjóra mánuði ársins urðu þar 86 óhöpp en þau voru 55 á sama tíma í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert