Tveggja ára stúlka var hætt komin í sundlauginni í íþróttamiðstöðinni Lágafelli í Mosfellsbæ í gær en stúlkan missti meðvitund í lendingarlaug neðan við rennibraut. Að sögn Útvarpsins var stúlkan í lauginni með móður sinni og eldri bróður. Laugargestur varð var við stúlkuna í lauginni og náði henni upp. Starfsmaður kom síðan að og lífgaði stúlkuna við.
Fram kom í fréttum Útvarpsins að talið sé að stúlkan hafi verið á laugarbotninum í innan við tvær mínútur og örfáar sekúndur hafi tekið að lífga hana við. Stúlkan var flutt á sjúkrahús en ekkert reyndist ama að henni.