Fyrsta hollið, sem lauk veiðum í Laxá í Mývatnssveit í gær, veiddi um 200 urriða á sex vöktum. „Þetta er búið að vera ágætt, þó ekki eins góð byrjun og síðustu tvö ár," sagði Hörður Halldórsson í veiðihúsinu Hofi. „Það var líka skítakuldi til að byrja með, og svolítil snjókoma, en svo fór að hlýna í gær."
Hann sagði fiskinn vera misjafnlega vel haldinn, líklega vanti ennþá flugu og meira æti. Öll svæði árinnar hafa verið að gefa, en samtals eru 18 stangir leyfðar á svæðinu.
320 á tvær stangir
Óvæntu fréttirnar úr Mývatnssveitinni eru þær að Arnarvatnsá og Helluvaðsá hafa þegar gefið um 320 urriða á tvær stangir. Helluvaðsáin rennur úr Arnarvatni en Arnarvatnsá er kvísl úr Laxá og hefur verið sagt að svæðið henti vel óreyndum veiðimönnum, þótt það geti verið býsna viðkvæmt. Halldór leigir veiðiréttinn. „Það er búið að veiða og sleppa í ánni síðastliðin þrjú ár og það er að skila sér núna," segir hann. „Veiðimennirnir sem hafa verið hér síðustu daga hafa varla trúað aflabrögðunum, þeir hafa verið að fá um 30 fiska á dag. Lítið smærra en 35 cm en sumir yfir 60 cm. Hér áður var svæðið að gefa um 100 fiska á sumri en í fyrra veiddust 506. Nú er sumarið allt eftir en veiðin strax komin yfir 300!" sagði hann kampakátur. Talsvert er bókað í ána seinnipart sumars en mikið laust af stöngum næstu vikurnar.
Kropp á Þingvöllum
Veiðimenn vonast til þess að silungsveiðin glæðist nú í hlýindunum, eftir tregt fiskirí í kuldakastinu undanfarið. Menn voru að setja í eina og eina bleikju á Þingvöllum í fyrrakvöld, en þá þurfti að draga flugurnar hægt við botninn til að fá viðbrögð. Einn viðmælandi veiddi eina þriggja punda bleikju á Öfugsnáða – en tapaði 12 flugum í festum. Margir voru að egna fyrir urriða eftir fréttina um risahrygnuna sem Börkur Birgisson úr Keflavík veiddi á dögunum – 26 pund vó hún.
Í Hlíðarvatni í Selvogi hefur verið tregt í kuldanum eins og svo víða, menn hafa verið að fá nokkrar bleikjur á dag, með barningi. Veiðimaður sem var þar fyrir helgi varð ekki var fyrr en hann kom að Réttinni og setti undir Mýslu og vínilpúpu. Þá dró hann átta bleikjur á sama blettinum á klukkutíma. Eftir matarhlé mætti hann á sama stað og bætti við þremur. Annars staðar varð hann ekki var það sem eftir lifði dags. Morguninn eftir fór hann á sama blettinn og fékk tvær bleikjur til. Aðrir staðir gáfu ekki neitt.
Laxinn mættur í Kjósina
Fregnir bárust af því að fyrstu laxar sumarsins hefðu sést í Laxá í Kjós. Sáust þrír, einn í Laxfossi og tveir í Klingenberg. Nú styttist í að laxveiðin hefjist, en Norðurá verður ekki opnuð 1. júní eins og verið hefur, heldur á þriðjudaginn kemur, hinn 5. Þá hefst einnig veiði í Blöndu.