Ályktun um að hvalveiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins sé enn nauðsynlegt var samþykkt á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Anchorage í Alaska í kvöld. Tillagan er í raun svar við tillögu, sem samþykkt var í fyrra um að hvalveiðibannið hafi átt að vera tímabundið og sé orðið óþarft en nú hefur fjölgað í röðum þeirra ríkja, sem vilja viðhalda veiðibanninu.
Í ályktuninni, sem samþykkt var í kvöld, er einnig vísað til þess að ekki eigi að gera neinar breytingar á þeim takmörkunum á verslum með kjöt og aðrar hvalaafurðir, sem Sáttmálinn um verslun með tegundir í útrýmingarhættu, CITES, kveður á um.
Stuðningsmenn tillögunnar sögðu nauðsynlegt að hnykkja á þessu í ljósi þess að aðildarríki CITES, 171 að tölu, koma saman til ársfundar í Amsterdam á sunnudag en þar verður farið yfir þær þúsundir dýra- og plötutegundir, sem falla undir sáttmálann og metið hvort breyta eigi skilgreiningum.
Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar í Anchorage, gagnrýndi þetta hins vegar í viðtali við AP fréttastofuna og sagði að CITES ætti að taka ákvarðanir út frá eigin viðmiðunum, ekki pólitík hvalveiðiráðsins.
Ályktunin var samþykkt með 37 atkvæðum gegn 4 en Ísland og 25 aðrar þjóðir neituðu að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.