Tæplega 27 ára karlmaður, Hlynur Freyr Kristjánsson, hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn tveimur telpum og vörslu barnakláms auk fíkniefna- og umferðarlagabrota. Alvarlegasta brotið var gegn fimm ára stúlku en maðurinn var dæmdur fyrir að hafa lokkað hana inn í skúr á leiksvæði og látið hana snerta getnaðarlim sinn og jafnframt sett liminn upp í barnið. Gerðist þetta í janúar sl. Ákærði neitaði sök af þessum ákærulið en var sakfelldur og einnig dæmdur til að greiða barninu 800 þúsund krónur í miskabætur.
Ákærði var einnig dæmdur fyrir að sýna 10 ára stúlku klámmynd og var gert að greiða henni 100 þúsund krónur í bætur. Dómurinn sakfelldi hann einnig af ákæru fyrir að hafa verið með í vörslum sínum gróft barnaklámefni og var fjöldi myndanna yfir 1 þúsund talsins.
Maðurinn var sýknaður af ákæru fyrir að hafa sýnt annarri fimm ára telpu kynfæri sín og jafnframt var hann sýknaður af ákæru fyrir að sýna ungri telpu klámfengna ljósmynd og áreita hana með því að spyrja hana hvort hún vildi sjá kynfæri hans. Geðrannsókn var gerð á manninum og var hann greindur með barnagirnd, en þó talinn sakhæfur. Málið dæmdu héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, Sigríður Ólafsdóttir og Ásgeir Magnússon. Verjandi var Sigmundur Hannesson hrl. og sækjandi Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara.