Guðjón Arnar: Fólk í sjávarbyggðum nýtur ekki raunverulegs jafnréttis

Frá Alþingi í kvöld.
Frá Alþingi í kvöld. mbl.is/Brynjar Gauti

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, að fólk í sjávarbyggðum væri áfram réttlaust til vinnu og búsetu þrátt fyrir loforð stjórnvalda um að skapa öllum landsmönnum jöfn tækifæri.

Guðjón sagði, að Frjálslyndi flokkurinn tæki því illa, ef byggja ætti svokallaða sáttagjörð á því markmiði að tryggja stöðugleika í sjávarútvegi og byggði á núverandi ósætti kvótabraskkerfisins. Kerfis sem með réttu mætti hafa nafnið þjófamarkskerfi vegna þess að lögin mörkuðu þau örlög, sem hver sjávarbyggðin eftir aðra hefðu hlotið undanfarinn einn og hálfan áratug. Sagði Guðjón, að fólkið sem þar byggi nyti ekki raunverulegs jafnréttis, sem skapaði öllum jöfn tækifæri.

„Telja stjórnarliðar virkilega að sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu, eins og forsætisráðherra sagði orðrétt í stefnuræðu sinni, leiði eitthvað í ljós sem fólkinu í sjávarbyggðunum er hulið og það sé aftur og aftur að missa atvinnu sína og tapa eignum sínum vegna þess að ekki hafi farið fram sérstök rannsókn á því fólki, sem býr í...?" og síðan taldi Guðjón upp útgerðarbæi um mestallt land.

Guðjón spurði einnig, hverjar áherslur Davíðs og Halldórs hefðu verið í utanríkismálum ef nýju hornsteinarnir í íslenskri utanríkisstefnu væru áhersla á mannréttindi aukna þróunarsamvinnu og friðsama úrslausn deilumála. „Voru þær áherslur stuðningur við stríð, ráðning vildarvina í utanríkisþjónustuna eins hratt og því var við komið og lítil áhersla á friðsamlega lausn deilumála? Svo má ætla ef upptalningin nú markar í raun og veru nýja hornsteina í utanríkisstefnunni," sagði Guðjón.

Frá Alþingi í dag.
Frá Alþingi í dag. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka