Samkvæmt frumvarpi um breytingar á Stjórnarráði Íslands, sem lagt var fram á Alþingi í dag, verður Hagstofu Íslands breytt úr ráðuneyti í sjálfstæða stofnun. Þær breytingar munu þó ekki öðlast gildi fyrr en í ársbyrjun 2008 og vinnst því tími til að endurskoða lög um Hagstofu Íslands og undirbúa þá breytingu meðal annars að því er varðar réttarstöðu starfsmanna en gert er ráð fyrir að breytingin hafi engin áhrif á hana.
Frumvarpið er lagt fram vegna þeirra áforma ríkisstjórnarinnar, að sameina sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti í eitt ráðuneyti undir heitinu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og færa verkefni á sviði almannatrygginga frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis. Þessar breytingar eiga að taka gildi strax og frumvarpið verður afgreitt sem lög frá Alþingi.
Í frumvarpinu er einnig lagt til, að heimilt verði að sameina tvö eða fleiri ráðuneyti í eitt með úrskurði forseta. Slíkan úrskurð mundi forseti gefa út samkvæmt tillögum forsætisráðherra. Í úrskurðinum yrði eftir atvikum kveðið á um heiti hins sameinaða ráðuneytis og önnur atriði sem taka þyrfti á við sameininguna.
Samhliða þessu frumvarpi hefur ríkisstjórnin lagt fram frumvarp um breytingar á þingskaparlögum, þar sem gert er ráð fyrir því efnahags- og viðskiptanefnd þingsins verði skipt í tvær nefndir, efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd. Einnig verði nafni félagsmálanefndar breytt í félags- og tryggingamálanefnd og heilbrigðis- og trygginganefnd heiti eftirleiðis heilbrigðisnefnd. Loks verða sjávarútvegsnefnd og landbúnaðarnefn sameinaðar í eina nefnd. Þessar breytingar eiga að taka gildi strax og lögin verða samþykkt.