Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo hefur sent frá sér yfirlýsingu að til greina komi að stefna fyrrverandi starfskonu fyrirtækisins vegna ásakana um stefnuleysi í öryggismálum, þar sem ummæli hennar í fjölmiðlum séu til þess fallin að rýra orðspor félagsins. Þá segir í yfirlýsingunni að ekki sé rétt að umræddum starfsmanni hafi verið sagt upp fyrirvaralaust.
Síðustu daga hefur Bára Einarsdóttir, sem starfaði um hríð fyrir Impregilo, sakað fyrirtækið um margháttaðar misgjörðir gagnvart starfsmönnum m.a. mismunun eftir þjóðerni, um skort á stefnu og viljaleysi til að halda uppi öryggi á vinnustað.
Impregilo telur þessar ásakanir tilhæfulausar. Þvert á móti ber félagið virðingu fyrir starfsmönnum sínum, framlagi þeirra og réttindum. Impregilo hefur enda áunnið sér traust þúsunda starfsmanna sinna af fjölmörgu þjóðerni, sem hafa kosið að fylgja félaginu eftir í krefjandi verkefnum um allan heim. Fjöldi þeirra hefur kosið að vinna allan sinn starfsaldur hjá Impregilo. Starfsmannastefna félagsins miðar að því að tryggja öryggi og velferð starfsmanna og gefa þeim færi á að eflast í starfi.
Af fjölmörgum ásökunum Báru Einarsdóttur telur Impregilo alvarlegast að hún sakar félagið um stefnuleysi í öryggismálum og að þau séu markvisst látin sitja á hakanum. Þetta eru rangar ásakanir. Impregilo Group leggur þvert á móti mikla áherslu á skipulag öryggismála og framkvæmd öryggisráðstafana í störfum sínum um allan heim. Þetta á ekki síst við á Kárahnjúkum þar sem unnið er við fádæma erfiðar aðstæður og öryggismál eru því stöðugt í brennidepli.
Frá upphafi framkvæmda við Kárahnjúka hefur félagið þráfaldlega verið borið röngum sökum um hin fjölbreytilegustu málefni. Því hefur þó öllu verið svarað og sýnt fram á hið rétta. Íslenskir dómstólar hafa staðfest að ásakanir um brot á kjarasamningum og lögum hafa verið rangar. Hitt er miður, að tilhæfulausar ásakanir hafa skemmt orðspor félagins og það eins þótt þær hafi verið hraktar hvað eftir annað.
Ummæli Báru Einarsdóttur eru mjög til þess fallin að rýra orðspor félagsins ef sönn reyndust. Af þeim sökum kemur mjög til greina að höfða dómsmál til að fá þeim hrundið. Ákvörðun þar um verður tekin á næstu dögum.
Því er að endingu mótmælt að Impregilo hafi sagt Báru upp störfum fyrirvaralaust s.s. hún hefur haldið fram. Hið rétta er að fyrirtækið sá sig knúið til að líta svo á að með endurteknum fjarvistum hafi hún sjálf slitið ráðningarsambandi sínu við félagið eftir að hafa verið fjarverandi 73 daga á 144 daga tímabili.