Ákveðið hefur verið að opna nýtt útibú Landsbankans í Finnlandi og er ráðgert að það taki til starfa 1. ágúst nk. Bankinn hefur nú þegar ráðið til starfa hóp reyndra starfsmanna úr finnska fjármálageiranum sem mun mynda kjarnann í starfsemi útibúsins.
Útibúið mun í upphafi leggja áherslu á verðbréfatengda starfsemi, miðlun hlutabréfa og greiningu. Útibúið mun bjóða finnskum fjárfestum upp á evrópsk hlutabréf í gegnum sölukerfi dótturfélaga Landsbankans og hafa milligöngu um sölu á finnskum verðbréfum til fjárfesta í Finnlandi og annars staðar í Evrópu.
Pertti Ijäs mun veita útibúinu forstöðu og Olli Kähkönen verður yfir greiningardeild þess. Ásamt þeim hafa Jukka-Pekka Eilittä, Jukka Parkkinen, Mikka Ruuhonen, Tommi Degerman, Robin Santavirta, Artem Beletski og Lauri Saarela verið ráðnir til Landsbankans. Þeir störfuðu allir áður hjá fjármálafyrirtækinu FIM.
Útibúið í Helsinki er annað útibú bankans á Norðurlöndum en fyrir rekur bankinn útibú í Osló sem sinnir útlánum til fyrirtækja. Að sögn bankans verður útibúið í Finnlandi hið fyrsta á Norðurlöndum, sem beinir sjónum sínum að verðbréfatengdri starfsemi. Það verði jafnframt hluti af þéttriðnu neti sem Landsbankinn og dótturfélög hans hafi yfir hlutabréfamörkuðum Evrópu, þar sem um 100 starfsmenn í greiningardeildum greini tæplega níu hundruð fyrirtæki.