Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gerði hraðar breytingar í samfélaginu að umtalsefni þegar hann setti Alþingi í dag og sagði meðal annars, að á liðnum vetri hefðu menn orðið vitni að því, að ágreiningur sem klauf þjóðina í áratugi gufaði upp og í staðinn komið víðtæk samvinna við að breyta gamalli herstöð í háskólabyggð, um að herskálar verði nýttir fyrir námsmenn og vopnabúr gert að vísindastöð.
„Í viðræðum við fremstu háskólamenn í Ameríku hef ég fundið einlægan og ríkan áhuga þeirra á að gerast þátttakendur í þeirri vegferð. Að vera með okkur í því, að þróa háskólabyggð í herstöðinni og helga þannig samvinnu yfir Atlantshafið, sem áður var mótuð af köldu stríði, ögrandi viðfangsefnum í vísindum og tækniþróun á okkar tímum. Við getum virkjað til samstarfs nýja bandamenn og staðið þannig að málum að eftir verði tekið víða um veröld," sagði Ólafur Ragnar.