Óvenjumargir taka nú sæti á Alþingi í fyrsta sinn

Tuttugu og fjórir nýir þingmenn tóku sæti á sumarþingi, sem var sett í dag. Nú síðdegis verða kjörbréf afgreidd og að því loknu munu þeir þingmenn sem aldrei hafa tekið sæti á Alþingi áður undirrita drengskaparheit að stjórnarskránni.

Í setningarræðu sinni sagði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, meðal annars:

„Ég óska alþingismönnum til hamingju með traustið sem þjóðin hefur sýnt ykkur hverjum og einum. Ótvíræður trúnaður er í því fólginn að vera kjörinn alþingismaður, að axla æðstu ábyrgð sem lýðræðið veitir, vera falið að setja lög sem móta örlög einstaklinga, þjóðarinnar.

Einkum býð ég velkomna í þennan sal þá fjölmennu sveit sem hér situr nú í fyrsta sinn en óvenjumikil endurnýjun varð í kosningunum. Verður fróðlegt að fylgjast með nýjum straumum sem slík tímamót hafa ávallt haft í för með sér.

Reynslan kennir okkur þó að árin líða undrahratt og hver og einn þarf að nýta vel umboðið sem þjóðin veitir alþingismönnum. Flestum er sjálfsagt þannig farið að finnast ærinn tími framundan en rétt er þá að hafa í huga að mannaskipti hafa reynst hér tíð. Nú er enginn eftir í þessum sal sem á Alþingi sat þegar ég kom hér fyrst – og hefur sú mikla saga sem það mannval skóp nánast liðið sem örskotsstund.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert