Eftir viku í starfi í sundlauginni reyndist 29. maí verða sá vinnudagur sem seint mun líða Jóhanni Inga úr minni.
„Ég var að þrífa í karlaklefanum og varð litið út um gluggann," segir hann. „Það fyrsta sem ég gerði var að henda frá mér sköfunni og hlaupa af stað. Sundlaugargestur hafði þá komið stúlkunni upp á bakkann. Hún var byrjuð að blána þegar ég kom að þannig að ég hóf hjartahnoð og blástur. Stúlkan sýndi engar hreyfingar og ég hélt að hún væri dáin og sama héldu allir í kringum mig. En ég gafst ekki upp og hélt áfram þangað til hún rankaði við sér. Ég sneri henni þá á hliðina og þá gusaðist vatn upp úr henni og hún byrjaði að anda eðlilega. Um einni og hálfri mínútu síðar byrjaði hún að gráta og í því kom sjúkraliðið. Ef ég hefði komið seinna veit ég ekki hvað hefði gerst."
Nýbúinn á skyndihjálparnámskeiði
„Ég var nýbúinn að fara á skyndihjálparnámskeið þar sem ég fékk þjálfun í að hnoða lítil börn og fullorðna," segir hann.
Jóhann Ingi er vart búinn að jafna sig á atburðinum, og skal engan undra, enda felst gífurlegt álag í því að beita hjartahnoði við alvarlegar aðstæður eins og þessar. Jóhann Ingi hætti hins vegar ekki meðferðinni þótt stúlkan litla væri farin að sýna lífsmerki. Hann fylgdi lífguninni eftir með því að halda utan um höfuð hennar og sá til þess að hendur hennar og fætur væru hreyfð til að liðka fyrir meiri öndun.
Hann segir ekki hafa hvarflað að sér að skömmu eftir skyndihjálparnámskeiðið myndi hann lenda í öðru eins, „en guði sé lof, þá tók ég vel eftir á námskeiðinu", segir hann. „Ég hvet alla til að fara á svona námskeið því það borgar sig. Ég er mjög glaður að stúlkan skyldi lifa af og jafnframt mjög feginn að hafa lært skyndihjálpina."