„Þetta er náttúrlega svo vitlaust að það er ekki hægt að tala um það. Það er eiginlega furðulegt að það skuli vera fullorðnir menn sem setja svona lög," segir Stefán Halldórsson um úrskurð óbyggðanefndar í þjóðlendumálum á Norðausturlandi sem kynntur var á þriðjudag. Stefán er einn af eigendum Brúar í Jökuldal.
Stefán hefur ásamt öðrum landeigendum átt í deilum við Landsvirkjun um vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar. Standi úrskurður óbyggðanefndar þykir ljóst að ríkið á rúmlega 60% réttindanna. Úrskurðurinn hefur því veruleg áhrif á vatnsréttindamálið, enda skerðast lönd Brúar, Valþjófsstaðar og Skriðuklausturs verulega.
Stefán segir úrskurðinn ekki hafa komið sér svo mjög á óvart. Hann hafi alltaf grunað að það væri meiningin að koma landinu undir ríkið. Miklir hagsmunir séu í húfi að því er varði vatnsréttindin.
„Þetta sama ríki rukkar mig um fasteignagjöld af lóðum sem ég leigi í þessu landi sem þarna er tekið af mér. Þetta er bara rán, það er ekkert hægt að hafa önnur orð um það," segir Stefán um úrskurðinn. Hann segir engan vafa á því að málinu verði skotið til dómstóla, menn verði að komast að því hvort réttarkerfið virki.
Jón Sigfússon er fyrrverandi oddviti Svalbarðshrepps en hann gegndi embættinu þegar kröfugerð ríkisins var lögð fram. Sveitarfélagið hafði talið sig eiganda jarðarinnar Vatnsenda en hún var úrskurðuð þjóðlenda af óbyggðanefnd í gær. Jón segir niðurstöður nefndarinnar almennt vera furðulegar og byggt sé á heimildum sem séu gamlar og á svig við það sem almennt hafi verið talið. Fólk í hreppnum sé furðu lostið. „Ég veit ekki hvað maður á að segja. Manni finnst í hjarta sínu að það sé gjörsamlega verið að fótumtroða þetta fólk sem hér hefur haldið uppi byggð á afskekktu, harðbýlu svæði. Ég er viss um að þegar íslensk réttarsaga verður skrifuð seinna meir þá verða þessi þjóðlendumál talin svartasti blettur á henni í allri samanlagðri sögu Íslands."