Hæstiréttur hefur dæmt 27 ára gamlan karlmann, Loft Jens Magnússon, í 3 ára fangelsi fyrir að hafa slegið annan karlmenn hnefahögg í hálsinn með þeim afleiðingum að hann lést. Þetta gerðist í veitingahúsi í Mosfellsbæ í desember árið 2004. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða eiginkonu og börnum mannsins sem lést á 13. milljón króna í bætur.
Loftur var jafnframt sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Hérðaðsdómur hafði áður dæmt Loft í 2 ára fangelsi.
Hæstiréttur segir, að við ákvörðun refsingar Lofts verði ekki litið fram hjá því hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af broti hans og að árásin var algjörlega tilefnislaus. Á hinn bóginn segist rétturinn ekki telja, að Lofti hefði verið ljóst að afleiðingar hnefahöggs hans gætu orðið svo alvarlegar sem raun bar vitni. Hann hafði ekki áður hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot, en frá 18 ára aldri sætt refsingu tíu sinnum fyrir umferðarlagabrot.
Þá segir í dómnum, að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að Loftur hafi eftir brotið leitað sér aðstoðar vegna óreglu sinnar eða reynt á einhvern hátt að bæta fyrir brotið, auk þess sem málið hafði tafist af hans völdum. Því ætti hanns sér engar málsbætur.