Þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Hæstiréttur hefur dæmt 22 ára gamlan karlmann, Edward Apeadu Koranteng, í 3 ára fangelsi fyrir að hafa þröngvað 14 ára stúlku með ofbeldi til samræðis. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 1 milljón króna í miskabætur. Hæstiréttur staðfesti með þessu dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.

Stúlkan kærði nauðgunina í nóvember árið 2005 og sagði hana hafa átt sér stað í íbúð mannsins í september. Hún hafi ásamt tveimur vinkonum sínum hitt manninn á Hlemmtorgi og hann hafi boðið þeim heim til sín til að hlusta á tónlist. Stúlkan sagði að maðurinn hefði þar farið með hana inn í herbergi og haft við hana samræði.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, segir, að stúlkan hafi skýrt frá atvikum með trúverðugum hætti og framburður hennar samræmist framburðum vitna. Engum vafa sé undirorpið, að stúlkurnar séu að greina frá raunverulegum atburðum sem sett hafi mark sitt á þær.

Maðurinn hafi hins vegar orðið margsaga um tildrög þess að stúlkurnar komu á heimili hans haustið 2005 og hvaða kynni hann hafði haft af þeim áður. Vitni hafi borið, að maðurinn hafi verið einn með stúlkunni inni í herbergi og að virtum lýsingum stúlknanna á atvikum umræddan dag verði að hafna sem röngum þeim framburði mannsins, um að hann hafi aldrei verið einn í herbergi með stúlkunni og að engin kynferðisleg samskipti hafi átt sér stað milli þeirra.

Segir dómurinn að enginn vafi leiki á því, að stúlkan upplifði alvarlega atburði í herberginu og varð fyrir áfalli af þeim sökum. Ungur aldur hennar mæli einnig gegn því, að ítarleg lýsing hennar á því sem gerðist í herberginu sé annað en rétt. Við þessar aðstæður telji dómurinn, að leggja verði til grundvallar frásögn stúlkunnar af atburðum í herberginu.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn eigi sér engar málsbætur en hann hafi framið alvarlegt kynferðisbrot gagnvart 14 ára stúlku og neytt bæði aldurs- og aflsmunar við brotið. Á hann sér engar málsbætur. Brotið hafi verið ófyrirleitið og til þess fallið að valda stúlku á viðkvæmum aldri verulegum skaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert