Lögreglu barst undir kvöld í gærkvöldi tilkynning um athugavert aksturslag bifreiðar í Hvalfjarðargöngum. Eftirlitsbifreið lögreglunnar á Akranesi brást við tilkynningunni og stöðvaði för bílsins, sem var á leið á Akranes.
Grunur vaknaði um að ökumaðurinn væri undir áhrifum lyfja og var hann færður á lögreglustöð. Prófun sem gerð var benti til þess að hann væri undir áhrifum ólöglegra fíkniefna en lyfjapróf svaraði amfetamíni, metamfetamíni, ópíumefnum og kannabis.
Við líkamsleit sem framkvæmd var fannst lítilræði af hassi og í framhaldi af því var leitað í bíl mannsins. Við þá leit fundust 26 grömm af ætluðu amfetamíni, 17 grömm af hassi, 1 gramm af maríjúana og 51 tafla af róandi lyfjum. Leitarhundur úr Borgarnesi var fengin til að aðstoða við leitina.
Við yfirheyrslu sagðist maðurinn ekki hafa neytt fíkniefna síðan um hvítasunnu en hafa notað einhver lyf síðan þá. Hann sagðist hafa orðið mjög hissa þegar lögregla fann fíkniefni í bílnum en viðurkenndi þó að eiga þau og að hafa keypt þau, til eigin neyslu, fyrir hvítasunnuna en hafa misst þau niður um gat við handbremsuna í bílnum. Hann hafi talið að efnin hafi fallið út úr bifreiðinni og væru glötuð.
Lögreglu þótti magnið dálítið mikið til eigin neyslu en skýringuna sagði maðurinn vera þá að ódýrara væri að kaupa meira en minna.
Hann var látinn laus að lokinni yfirheyrslu.