Nú er komið í ljós að 38 þúsund manns sóttu leiksýningar Leikfélags Akureyrar á leikárinu sem nú er að baki, þar af 27 þúsund á Akureyri og 11 þúsund í Reykjavík. Fjöldi leikhúsgesta á Akureyri er nýtt met en á síðasta leikári sáu 25 þúsund manns sýningar félagsins á Akureyri og 17 þúsund í Reykjavík.
Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri, segir að engar sýningar verði á vegum félagsins í sumar en verið sé að leggja síðustu hönd á verkefnaskrá næsta vetrar og sagðist Magnús Geir geta lofað því að hún yrði fjölbreytt og spennandi.
Fyrsta frumsýning haustsins verður 15. september á leikritinu Óvitum eftir Guðrúnu Helgadóttur í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar. Jón Ólafsson semur sönglög og tónlist við verkið. 500 börn komu í áheyrnarprufur fyrir sýninguna en 16 börn hafa verið valin til að taka þátt í uppsetningunni við hlið fullorðinna atvinnuleikara.
Magnús Þór sagði, að eins og undanfarin ár yrði lögð áhersla á að veita yngri leikurum tækifæri til að spreyta sig og springa út. Gerðir hafa verið samningar við þrjá leikara af yngri kynslóðinni, þau Guðjón Davíð Karlsson, sem verið hefur hjá félaginu undanfarin tvö ár, og þau Hallgrím Ólafsson og Kristínu Þóru Haraldsdóttur, sem útskrifast úr Leiklistarskóla Íslands á morgun. „Ég er þess fullviss um að munu heilla áhorfendur norðan og sunnan heiða," sagði Magnús Þór.
Um Guðjón Davíð, Góa, sagði Magnús Þór, að hann væri í raun orðinn annar burðarásinn í leikarahópi félagsins á móti Þráni Karlssyni, sem raunar hefur verið hjá Leikfélagi Akureyrar í 51 ár.
Magnús sagði að rekstur leikhússins hefði gengið vel í vetur og ljóst að rekstrarniðurstaða leikársins sé jákvæð þriðja leikárið í röð. Uppselt hafi verið langflest sýningarkvöld í leikhúsinu á Akureyri í vetur.