„Viðbrögð sjálfstæðismanna við stöðunni á Flateyri minnir óneitanlega á skítugu börnin hennar Evu, enginn vill kannast við neitt. Einararnir eru báðir farnir í felur og segja bara að þetta hafi komið sér á óvart“, segir Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í Norðvesturkjördæmi.
Þingflokkur VG er á ferð um norðanverða Vestfirði að kynna sér aðstæður sem hafa komið upp á Flateyri og í Bolungarvík ásamt öðru sem brennur á íbúum svæðisins. Þingflokkurinn fundaði með stjórnendum Kambs á Flateyri í morgun og Íbúasamtökum Önundarfjarðar.
„Ég skil ekki aðgerðar- og áhugaleysi stjórnvalda á ástandinu á Flateyri,“ segir Jón. „Við erum að kynna okkur málin og hitta fólk og fá þeirra sýn á það sem er að gerast.“
Jón óskaði eftir fundi með öllum þingmönnum Norðvesturkjördæmis skömmu eftir að öllu starfsfólki Kambs var sagt upp störfum en fundurinn hefur ekki verið haldinn. „Ég veit ekki hvers vegna fundurinn er ekki kominn á koppinn, ég sendi Sturlu Böðvarssyni, 1. þingmanni kjördæmisins, bréf þar sem ég óskaði eftir fundi en af honum hefur ekki orðið enn.“