Ísafold úthýst úr verslunum Kaupáss

Tímaritið Ísafold fæst ekki lengur í verslunum Kaupáss.
Tímaritið Ísafold fæst ekki lengur í verslunum Kaupáss. mbl.is/Þorkell

Forráðamenn Kaupáss hafa ákveðið að taka tímaritið Ísafold úr sölu. Í fréttatilkynningu frá Jóni Trausta Reynissyni ritstjóra tímaritsins segir að bolabrögðum hafi verið beitt til að taka Ísafold úr sölu hjá helstu verslunum Kaupáss, Nóatúni, Krónunni og 11-11. Jón Helgi Guðmundsson forstjóri Kaupáss segist aldrei hafa ætlað að selja þetta tímarit í sínum verslunum.

Jón Helgi sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að blaðinu hafi einhvern veginn verið smyglað inn bakdyramegin inn á sölulista og að nú hafi verið gerð regluleg vöruhreinsun og að það hafi selst svo lítið af þessu tímariti að ákveðið hafi verið að taka það úr sölu.

Tímaritið að mestu í eigu Baugs
Aðspurður hvort ástæðan fyrir því að hann hafi aldrei ætlað að selja þetta tímarit í sínum verslunum væri að það væri í eigu Baugs sagði hann vissulega að það væri tilfellið.

Greinir á um sölutölur Ísafoldar
Í fréttatilkynningu Jóns Trausta Reynissonar segir að Ísafold sé eitt mesta selda tímaritið í verslunum Kaupáss og að því séu augljóslega ekki viðskiptalegar ástæður að baki ákvörðuninni. Þessu vísar Jón Helgi á bug og segist ekki hafa selt meira en um 200 eintök á mánuði.

„Áhrifamenn reyndu ítrekað með þrýstingi að stöðva útgáfu 6. tölublaðs Ísafoldar vegna umfjöllunar um mansal í Kópavogi og aðkomu bæjarstjórans þar að næturklúbbnum Goldfinger. Það var án árangurs, en nú hefur þeim bolabrögðum verið beitt að taka Ísafold úr sölu hjá helstu verslunum Kaupáss, Nóatúni, Krónunni og 11-11," segir í fréttatilkynningu Jóns Trausta.

„Þetta er stormur í vatnsglasi, Gunnar Birgisson er enginn sérstakur skjólstæðingur minn," sagði Jón Helgi í samtali sínu við Fréttavef Morgunblaðsins.

Jón Trausti fordæmir aðgerðir Kaupáss og segir þær aðför að prentfrelsi. Jón Helgi sagðist einfaldlega ekki vilja eiga viðskipti við þessa aðila og sagði þá misnota aðstöðu sína í fjölmiðlaheiminum til að níða skóinn af samkeppnisaðilanum og og tók síðan sem dæmi að hann þyrfti ekki að gefa neinar ástæður fyrir því hversvegna hann kjósi að selja eina tegund af frönskum kartöflum fremur en aðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert