Íslendingar rannsaka jarðhita í Djíbútí

Orkuveita Reykjavíkur fékk rannsóknarleyfi í Djíbútí.
Orkuveita Reykjavíkur fékk rannsóknarleyfi í Djíbútí. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Orkuveita Reykjavíkur hefur fengið einkaleyfi til jarðhitarannsókna og forgang að hugsanlegri nýtingu á 750 ferkílómetrum lands á Assal misgenginu í Afríkuríkinu Djíbútí. Flatarmál svæðisins svarar til liðlega níu Þingvallavatna. Leyfisbréf þessa efnis var gefið út nú á dögunum. Íslenskir vísindamenn munu stunda mælingar og ákvörðun um tilraunaboranir verður tekin upp úr næstu áramótum.

Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að íbúar Djíbútís fá nú alla raforku sína með brennslu innflutts jarðefnaeldsneytis líkt og Íslendingar gerðu allt fram að 1960 og stjórnvöld í Djíbútí hafa hug á að feta svipaða slóð og Íslendingar í orkumálum.

Assal-migengið, sem gengur eftir stórum hluta austanverðrar Afríku, liggur þvert í gegnum Djíbútí og er jarðhiti í því víða verulegur.

Þegar hafa önnur ríki, sem Assal misgengið gengur um, sýnt verkefninu áhuga, þ.á.m. Erítrea, Eþíópía, og Kenía.

Upphaf samstarfsins má rekja til samkomulags sem Orkuveita Reykjavíkur og ríkisstjórn Djíbútís gerðu í Reykjavík í febrúar síðastliðnum, að viðstöddum forsetum landanna tveggja, þeim Ismail Omar Guelleh og Ólafi Ragnari Grímssyni og borgarstjóranum í Reykjavík, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni.

Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur voru í Djíbútí á dögunum þar sem verkefninu formlega hleypt af stokkunum. Í kjölfar þess gaf orkumálaráðuneyti Djúbútís út rannsóknaleyfi Orkuveitunni til handa. Nær það til 750 ferkílómetra landsvæðis austur af höfuðborg landsins og hefur Orkuveitan aldrei áður hlotið jafn víðfeðmt svæði til rannsókna. Svæðið er tæplega sjöfalt stærra en rannsóknasvæði OR á Hengilsvæðinu.

Helstu óvissuþættir raforkuvinnslu úr jarðhitanum þar er magn og efnasamsetning vökva í heitu jarðlögunum. Heimamenn hafa borað nokkrar tiltölulega grunnar rannsóknaholur og verða niðurstöður mælinga á þeim rýndar nú í sumar.

Í haust munu íslenskir vísindamenn halda utan til frekari mælinga. Ákvörðun um það hvar ráðist verður í rannsóknarboranir í misgenginu verður tekin snemma árs 2008 og munu boranir hefjast síðar á því ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka