Íslenskir námsmenn erlendis sem skráðir eru í nemendaskrá Hagstofunnar, voru 2308 haustið 2006. Tæplega helmingur þeirra, 1109 eða 48%, var við nám í Danmörku. Næst fjölmennastir eru íslenskir námsmenn í Bandaríkjunum, 304 talsins (13,2%) og í Englandi, 223 talsins (9,7%). Íslenskir námsmenn erlendis fara víða og haustið 2006 voru þeir skráðir til náms í 34 löndum.
Frá árinu 1999 hafa íslenskir námsmenn erlendis verið skráðir til náms í 49 löndum í öllum heimsálfum.
Hagstofan sækir upplýsingar sínar um námsmenn erlendis til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Námsmenn sem ekki fá námslán eru ekki inni í þessum tölum. Tölur frá öðrum löndum um íslenska námsmenn sýna að íslenskir námsmenn erlendis eru mun fleiri en tölur LÍN gefa til kynna. Munar þar mestu um námsmenn á Norðurlöndunum.