Japanar hóta að stofna ný hvalveiðisamtök

Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, t.h., ræðir við þá Dan …
Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, t.h., ræðir við þá Dan Goodman og Joji Morishita í japönsku nefndinni. AP

Japanar hótuðu í lok ársfundar Alþjóðahvalveiðiráðsins í Anchorage í morgun, að ganga úr ráðinu og stofna ný samtök til að stýra veiðum á hvölum í samræmi við hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá dró Japan til baka boð um að halda ársfund hvalveiðiráðsins í Yokohama árið 2009 og sögðu enga þýðingu að halda fundi samtaka, sem neituðu að heimila sjálfbæra nýtingu hvala.

„Það er raunverulegur möguleiki að við munum hætta að taka þátt í starfi Alþjóðahvalveiðiráðsins og stofna ný samtök," sagði Akira Nakamae, annar tveggja formanna japönsku sendinefndarinnar. Hann sagði að Japanar íhuguðu einnig, að hundsa hvalveiðibann hvalveiðiráðsins og gefa út veiðikvóta á hvölum innan efnahagslögsögu Japans.

Japanar fengu ekki stuðning við tillögu um að gefinn verði út hrefnuveiðikvóti til veiðimanna í fjórum strandhéröðum í Japan. „Ég held að það séu alltaf takmörk fyrir því hvað hægt er að láta reyna á þolinmæðina," sagði Joji Morishita, hinn formaður japönsku nefndarinnar. Sagði hann að andstæðingar hvalveiða í ráðinu hefðu ekki viljað ná neinni málamiðlun. Meginmarkmið Japans væri að tryggja hefðbundin réttindi strandhéraðanna, sem hafi reitt sig á hvalveiðar frá 17. öld.

Nakamae sagði að Japanar hefðu mikinn áhuga á að halda undirbúningsfund fyrir stofnun nýrra samtaka sem sæju um verndun og veiði á hvölum og gæti komið í stað Alþjóðahvalveiðiráðsins. Um 30 núverandi aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins hafa fylgt Japönum að málum á ársfundinum nú.

Japanar hafa oft áður hótað að ganga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu en þetta er í fyrsta skipti sem þeir tala um að stofna ný veiðistjórnunarsamtök.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert