Reykjavíkurborg mun á næstu misserum auka beinan stuðning við þátttöku barna og unglinga í skipulögðu æskulýðs-, tómstunda-, menningar og íþróttastarfi. Verkefnið er nefnt Frístundakortið og var kynnt í dag. Heildarfjárveiting Reykjavíkurborgar á næstu fjórum árum til Frístundakortsins er 1860 milljónir.
Verkefnið hefur það að markmiði að tryggja að opinber stuðningur skili sér sem best og nýtist vel þeim sem vegna efnahags eða félagslegra aðstæðna eiga ekki jafn auðvelt og aðrir að taka þátt í skipulögðu frítímastarfi.
Segir í tilkynningu frá Íþrótta- og tómstundaráði og Reykjavíkurborg, að barnafjölskyldur í borginni muni í fyllingu tímans njóta þessara aðgerða. Verkefnið leggi vissulega aukna ábyrgð á herðar félaga sem starfa á vettvangi frítímans en skapi þeim einnig mörg ný sóknarfæri.
Innleiðing Frístundakortsins er unnin í nánu samráði við félög og samtök í borginni sem hagsmuna hafa að gæta varðandi frístundastarfsemi. Markhópur Frístundakortsins er aldurshópurinn 6-18 ára en í þessum aldurshópi eru í dag tæp 20 þúsund börn og unglingar. Í fyrsta áfanga Frístundakortsins er gert ráð fyrir að um 65% þeirra njóti stuðnings þess eða alls um 13 þúsund.
Meginmarkmið Frístundakortsins er að öll börn og unglingar í Reykjavík geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Með Frístundakortinu má greiða að hluta fyrir íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi á vegum félaga og samtaka sem starfa í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum.
Frístundakortið verður innleitt í þremur áföngum og hefst sá fyrsti haustið 2007 og er þá miðað við 12.000.- króna framlag. Annar áfangi hefst 1. janúar 2008 og er þá miðað við 25.000.- króna framlag á árinu. Með þriðja áfanga lýkur innleiðingu frá og með 1. janúar árið 2009 og er þá miðað við 40.000.- króna framlag á því ári. Heildarfjárveiting Reykjavíkurborgar á næstu fjórum árum til Frístundakortsins er 1860 milljónir.
Meginskilyrði fyrir því að félag geti fengið aðild að Frístundakortinu er að starfsemi þess sé á forsendum uppeldislegra gilda og forvarna í víðum skilningi. Starfsemin fari fram undir leiðsögn hæfra starfsmanna og leiðbeinenda við aðstæður sem hæfa starfi með börnum og unglingum. Styrkhæf starfsemi verði að miðast við 10 vikur samfellt hið minnsta.
Ekki verður um beingreiðslur til foreldra að ræða heldur fá foreldrar rétt til að ráðstafa tilgreindri upphæð í nafni barns síns til greiðslu á hluta þátttöku- og æfingagjalda. Hverju ári verður skipt í þrjú tímabil, haustönn, vorönn og sumarönn. Heimilt verður að nýta styrkina til greiðslu fleiri en einnar greinar eða starfsemi en þó ekki fleiri en þriggja á hverju tímabili. Eftirstöðvar, ef einhverjar eru, flytjast sjálfkrafa milli tímabila en ekki verður heimilt að flytja eftirstöðvar milli ára.
Skráning gengur þannig fyrir sig að foreldri eða forráðamaður barns skráir það í starfsemi félags sem gert hefur samning við ÍTR. Félagið sendir ÍTR lista yfir skráða þátttakendur. Námskeiðið birtist á Rafrænu Reykjavík undir kennitölu foreldris/forráðamanns sem getur þá ráðstafað greiðslu af Frístundakortinu til félagsins. Félagið fær svo þessar upplýsingar og lækkar þátttökugjaldið sem þessu nemur. Stefnt er að því að öll skráning í starfsemi og umsýsla Frístundakortsins fari fram með rafrænum hætti á Rafrænu Reykjavík.