Sala á 13 íbúðum í nýjum húsum í 2. áfanga 101 Skuggahverfis í Reykjavík hefst nú í byrjun júní. Íbúðirnar eru flestar á efstu hæðum en afhending miðast við að þær verði tilbúnar undir innréttingar. Í september er áætlað að hefja sölu 84 íbúða sem afhentar verða fullbúnar. Eignamiðlun mun selja íbúðirnar.
Harpa Þorláksdóttir, markaðsstjóri 101 Skuggahverfis, segir í tilkynningu, að mikill áhugi sé á íbúðunum og yfir 400 manns hafi skráð sig á lista yfir áhugasama.
Alls verða fimm byggingar verða reistar í þessum áfanga, samtals 97 íbúðir. Vinna við grunn allra húsa sem eftir er að byggja er á lokastigi. Undir byggingunum verða bílageymslur á þremur hæðum, þaðan sem innangengt verður að lyftum húsanna. Íslenskir aðalverktakar hf., ÍAV, sjá um byggingarframkvæmdir við 2. áfanga. Framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun en þeim á að ljúka um mitt ár 2009.
Íbúðirnar verða 67-300 fermetrar að stærð. Þrjár byggingar tilheyra Vatnsstíg. Skúlagötumegin verður 19 hæða turn, alls 63 metrar hár, með 42 íbúðum. Við Vatnsstíg verður átta hæða bygging með 15 íbúðum. Tvær byggingar verða við Lindargötu, þriggja hæða bygging með 9 íbúðum og 11 hæða bygging með 31 íbúð.