Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu, segist ánægður með þann dóm Hæstaréttar að vísa flestum þeirra ákæruliða Baugsmálsins sem dómurinn vísaði frá vegna óskýrrar refsiheimildar í upphafi síðasta mánaðar, aftur í hérað til efnislegrar meðferðar. Segir hann að með dómnum sé fallist á kröfu ákæruvaldsins um að umræddir ákæruliðir skuli teknir til efnislegrar meðferðar. „Það er þetta sem við viljum fá,” sagði hann. „Við viljum að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar en ekki bara sjá því kastað út. Þegar felldur hefur verið efnislegur úrskurður í því verður síðan hægt að taka ákvörðun um það hvort þeim úrskurði verði áfrýjað.”
Sigurður segir dóm Hæstaréttar ekki snerta efnisatriði málsins enda sé Hæstarétti alls óheimilt að taka afstöðu til efnisatriða þegar hann fjalli um kæru sem þessa. Það að Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeis Jóhannessonar, líti á dóminn sem vísbendingu um það hver niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur verður sé því bara hans persónulega mat.