Thorvaldsensbazarinn, Austurstræti 4 í Reykjavík er 106 ára í dag og hefur verslunin verið á sama stað allan þann tíma. Öll vinna við verslunina er unnin í sjálfboðavinnu og rennur ágóði til góðgerðarmála. Í tilefni afmælisins bjóða Thorvaldsenskonur upp á kaffi og pönnukökur milli klukkan tíu og fjögur.
Saga Thorvaldsbazarsins er merkileg en Thorvaldsensfélagið sem stofnað var árið 1875 festi kaup á húsinu við Austurstræti árið 1901 og setti þar upp verslun sem nefnd var Thorvaldsensbazar. Verslunin er nú ein elsta verslun í Reykjavík og hefur öll árin 106 verið á sama stað. Öll vinna við verslunina er unnin í sjálfboðavinnu tæplega 80 félagskvenna í Thorvaldsensfélaginu. Ullarvörur og ýmis konar handverk hefur verið helsta söluvaran í búðinni.
Söluágóði hefur runnið til góðra málefna og styrkti Thorvaldsensfélagið barnadeildina á Landakoti og síðar á Landspítalnum í Fossvogi til tækjakaupa. Félagið stofnaði sérstakan sjóð við Barnaspítala Hringsins til styrktar sykursjúkum börnum og unglingum og styrkir einnig fjölskyldur veikra barna, unglingastarf, vímuvarnir og margs konar landssafnanir.