Á skólaárinu 2006-2007 er heildarfjöldi nemenda á landinu á öllum skólastigum 102.288, að sögn Hagstofunnar. Á yfirstandandi skólaári eru skráðir 17.216 nemendur á leikskólastigi, 43.875 nemendur á grunnskólastigi, 24.459 nemendur á framhaldsskólastigi og 16.738 á háskólastigi.
Nemendum á Íslandi hefur fjölgað um 1117 frá árinu áður, eða um 1,1%. Nemendum á framhaldsskólastigi fjölgaði um 4,8% frá haustinu 2005 en fjölgun á háskólastigi var 0,7% á sama tíma.
Frá 1997 hefur nemendum á öllum skólastigum fjölgað um 16.128 eða 18,7%. Hagstofan segir, að hlutur kvenna í þeirri fjölgun sé áberandi en á þessu tímabili fjölgaði þeim um 10.432 (24,3%) en körlum um 5696 (13,2%). Konur eru 53,2% nemenda á framhaldsskólastigi og 62,3% nemenda á háskólastigi.
Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2006 var 93% sé miðað við öll kennsluform, þ.e. dagskóla, kvöldskóla og fjarnám. Skólasókn 16 ára ungmenna hefur lækkað um eitt prósentustig frá fyrra ári þegar hún var 94%. Skólasókn 16 ára nemenda hefur hækkað að jafnaði um eitt prósentustig á ári allt frá 1999. Skólasóknin lækkaði hins vegar nú um eina prósentu.
Stúlkur sækja skóla í meira mæli en piltar. Skólasókn 16 ára stúlkna er þremur prósentustigum hærri en pilta eða 94% á móti 91% meðal pilta. Nokkur munur er á skólasókn 16 ára ungmenna eftir landshlutum. Alls staðar er skólasókn 90% eða hærri, lægst er hún á Vesturlandi (90%) en hæst á Norðurlandi vestra (96%).
Skólasókn 17 og 18 ára nemenda hækkaði um eitt prósentustig frá haustinu 2005 en 85% 17 ára ungmenna og 74% 18 ára ungmenna sækja skóla.