Slökkviliðsstjórinn í Vestmannaeyjum, Ragnar Þór Baldvinsson, segist ekki hafa miklar áhyggjur af Vinnslustöðinni, enda hafi hann tröllatrú á þeim Eyjamönnum sem séu í brúnni hjá fyrirtækinu og sé þess fullviss að fyrirtækið verði áfram í höndum heimamanna. "Þetta er baráttuleikur sem er hvað mest í fjölmiðlum og er ekkert mjög alvarlegur að ég held," segir Ragnar Þór. "Við vorum nú bara að ræða um lundann áður en þið komuð. Hann virðist ekki fá nægilegt fæði og það er eitthvað sem náttúran er að segja okkur þessa stundina. Það er nú svona það sem mest brennur á okkur," segir áhyggjulaus slökkviliðsstjórinn og skellir upp úr.