Hafró leggur til þriðjungs samdrátt í þorskafla

Þorskur á markaði.
Þorskur á markaði. Reuters

Verði þær aflatillögur sem Hafrannsóknastofnunin kynnti í dag að veruleika þýðir það þriðjungs samdrátt i þorskafla og tapaðar útflutningstekjur upp á 15 milljarða króna.

Niðurskurður í ýsu og ufsa þýðir svo fimm milljarða samdrátt til viðbótar. Hafró leggur til að þorskafli næsta fiskveiðiárs verði takmarkaður við 130 þúsund tonn.

Heildarafli úr íslenska þorskstofninum árið 2006 var 196 þúsund tonn, samanborið við tæp 214 þúsund tonn árið áður. Úthlutað aflamark fyrir fiskveiðiárið 2006/7 var 193 þúsund tonn.

Ennfremur segir Hafró í skýrslu sinni að hún telji mikilvægt að aflamark á komandi árum miðist við 20% af viðmiðunarstofni í stað 25% eins og verið hefur.

“Ef núgildandi aflareglu verður áfram fylgt er líklegast að viðmiðunarstofn og hrygningarstofn haldist óbreyttur að stærð á komandi árum. Að teknu tilliti til óvissu í stofnmati eru hins vegar verulegar líkur á að stofninn fari undir sögulegt lágmark ef áfram verður veitt samkvæmt núgildandi aflareglu,” segir m.a. í skýrslunni.

Hafró leggur ennfremur til, að hámarksafli ýsu á næsta fiskveiðiári verið 95 þúsund tonn, en á síðasta ári var hann 98 þúsund tonn, eða svipaður og árið áður. Af ufsa leggur Hafró til að ekki verði veitt meira en 60 þúsund tonn, en á síðasta fiskveiðiári voru veidd tæp 76 þúsund tonn, sem var 44% aukning frá árinu áður.

Nánar má lesa um tillögur Hafró á vef stofnunarinnar.

Vefur Hafró

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka