Skrifað undir samning um kaup laxveiðiheimilda í sjó

Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF), skrifaði í dag undir sjö ára samning um gagnkvæman kauprétt Íslendinga og Grænlendinga á laxveiðikvótum í sjó í Norð-Vestur Atlantshafi. Orri sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að samningaviðræður NASF, Atlantic Salmon Federation (ASF) og samtaka grænlenskra fiskimanna hafi staðið hér á landi mestalla þessa viku og að þær hafi nú skilað þessum árangri.

Þá segir Orri samninginn tryggja það að enginn lax verði veiddur í sjó á svæðinu næstu sjö árin en tilgangur NASF með samningnum er að kaupa upp veiðiheimildir og koma þannig í veg fyrir að þær verði nýttar. Verður kaupverðinu varið til þróunarverkefna sem tengjast sjávarútvegi á Grænlandi.

Samsvarandi samningur rann út á síðasta ári og hefur verið unnið að gerð nýs samnings síðan þá.

Kaup veiðiheimildanna eru kostuð af NASF sem sækir fé til styrktaraðila á borð við eigendur laxveiðiáa og umhverfisverndarsamtök.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert