Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir í pistli á vefsíðu félagsins að hún telji ástæðu til að hafa áhyggjur af fregnum um tilraunir áhrifamanna til að koma í veg fyrir umfjöllun í tímaritsinu Ísafold. Hún segir brýnt að blaðamenn láti ekki undan viðskiptaþrýstingi eða láti slíkt hafa áhrif á skrif sín eða fréttamat.
„Enn einu sinni berast fregnir af því að blaðamenn og fjölmiðlar séu beittir þrýstingi til að koma í veg fyrir umfjöllun um mál sem þeir telja að eigi erindi til almennings. Það er áhyggjuefni," segir Arna um fregnir um meintar tilraunir Kaupáss til að hafa áhrif á ritstjórnarskrif Ísafoldar um súlustaðinn Goldfinger og tengsl bæjarstjórans í Kópavogi við þann stað.
„Það er að sjálfsögðu óþolandi þegar og ef áhrifamenn reyna, meðal annars í krafti valds síns, auðæfa eða viðskiptahagsmuna, að hafa áhrif á fréttaskrif fjölmiðla," segir Arna. „Mestu skiptir að blaðamenn og fjölmiðlar láti ekki undan slíkum þrýstingi ef þeir eru með í höndum upplýsingar sem varða almannahag. Skyldur blaðamanna eru fyrst og síðast við lesendur sína en ekki áhrifamenn í samfélaginu, auglýsendur, eigendur eða aðra sérhagsmunahópa. Mál sem varða almannahagsmuni eiga að þola opinbera umræðu. Það er fjölmiðlanna að segja frá þeim, innan ramma þeirra siðareglna sem stéttin hefur sett sér.