Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sagði í Sjómannadagsávarpi sínu að það sé „ljóst að við stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum sem liggja þurfa fyrir nú í sumar. Ég hygg að við þessar aðstæður sé skynsamlegast að við setjumst niður, hagsmunaaðilar, stjórnmálamenn úr öllum flokkum og vísindamenn og förum yfir þessi mál. Þetta er ekki ákvörðun sem rasað er að, þetta er ekki ákvörðun sem menn taka umhugsunarlaust."
„Þetta er ákvörðun sem í bráð hefur mikil áhrif á tekjur þeirra sem standa í sjávarútvegi. Þetta er ákvörðun sem hefur síðan áhrif á stöðu þjóðarbúsins og atvinnustig og getur í lengd haft mikið að segja fyrir afkomu þjóðarinnar. Í því öllu saman felst okkar ábyrgð. Ég vil sérstaklega taka fram að ég hef hug á að eiga gott samstarf um þessi mál á þverpólitískum grundvelli og hyggst leita eftir því við forystumenn stjórnmálaflokkanna."
„Í fyrra fól ég Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera sérstaka úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breyttri aflareglu og skoða áhrif af mismunandi veiðihlutfalli á þorski. Niðurstaðna þeirrar vinnu, sem staðið hefur nú um eins árs skeið, er að vænta innan tíðar. Þá má gera ráð fyrir að mynd okkar af stöðunni liggi skýrar fyrir og hver áhrif mismunandi ákvarðana yrðu á þjóðarbúið, einstök byggðarlög, svæði og atvinnugreinar. Að fengnum þeim upplýsingum, sést betur sú heildarmynd sem nauðsynleg er. Það dugar ekki þegar ákvörðun af þessu tagi er tekin, að myndin sem við höfum sé brotakennd. Hún verður að vera heildstæð."