Fjögurra daga hátíðardagskrá stendur nú yfir á Patreksfirði í tilefni sjómannadagsins. Hátíðin hófst á fimmtudag og lýkur með dansleik í kvöld. Á hátíðinni hefur m.a. farið fram víðavangshlaupið, Skútuhlaupið, firmakeppni í fótbolta, golfmót og stangveiðimót. Þá var boðið upp á sjávarréttasúpu á bryggjunni í gær og farið var í hátíðarsiglingu um fjörðinn, en allir bátar Patreksfjarðar tóku þátt í henni. Að siglingunni lokinni hófst síðan landleguhátíðin "Hafstraumar" þar sem fjöldi listamanna og hljómsveita kom fram.
Í dag voru lögð blóm að minnisvarðanum um látna sjómenn, gengin var skrúðganga til kirkjunnar með viðkomu við minnisvarða breskra og franskra sjómanna. Í kirkjunni fór síðan fram Sjómannadagsmessa þar sem sjómenn voru heiðraðir.
Nú stendur svo yfir skemmtidagskrá með hinum árlega kappróðri um höfnina og fleiri atriðum. Dagskránni lýkur síðan með stórdansleik í kvöld með hljómsveitinni Á móti sól.