Vilja upplýsingar um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni

Samráðsnefnd landssambanda innan ASÍ um virkjanasamning, sem Starfsgreinasambandið er aðili að ásamt Samiðn og Rafiðnaðarsambandi Íslands, hefur óskað eftir því við Vinnueftirlit ríkisins að það kanni hvort áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar hafi að geyma áhættumat vegna kynferðislegrar áreitni og forvarnir í því sambandi.

Þá er óskað eftir því að kannað verði hvaða þjónustu þolendur kynferðislegrar áreitni stendur til boða að hálfu fyrirtækisins, sé um slíka áreitni að ræða og hvernig tekið sé á slíkum málum. Þá er þess einnig óskað að kannað verði hvernig staðið er að kynningum á ofannefndum reglum meðal starfsmanna og yfirmanna.

Á heimasíðu Starfsgreinasambandið er vísað til ásakana, sem komið hafa fram í fjölmiðlum, um að tilteknir starfsmenn verktakafyrirtækisins Impregilo hafi sætt kynferðislegri áreitni af hendi yfirmanna sinna. Samráðsnefndin telji brýnt að hlutaðeigandi aðilar bregðist við þessum fregnum og grípi til aðgerða til að sporna gegn slíkri háttsemi og að farið verði með mál þolenda og gerenda í samræmi við lög og reglur.

Samráðsnefndin mun sjálf, auk erindisins til Vinnueftirlitsins, fara yfir það með fulltrúum verkalýðsfélaganna á svæðinu, þ.m.t. öryggis-, heilbrigðis- og umhverfiseftirlitsmönnum, hvernig skýra megi betur hlutverk þeirra á þessu sviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert