Þingmenn stjórnarandstöðunnar, einkum þó Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, tóku kuldalega á móti frumvarpi, sem Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir á Alþingi í dag um breytingar á skipun fastanefnda þingsins.
Frumvarpið fjallar um að efnahags- og viðskiptanefnd verði skipt í tvær þingnefndir, efnahags- og skattanefnd annarsvegar og viðskiptanefnd hins vegar; og að landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndir verði sameinaðar.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði að frumvarpið væri afrakstur pólitískra hrossakaupa við stjórnarmyndun. Með því væri brotið blað og pólitíkin færð innar og nær þinginu en oftast áður og það væri með endemum, að ríkistjórnin skuli ganga gegn þeirri órofa hefð, að leitað sé eftir samkomulagi og samstöðu um breytingar á þingsköpum.
Sagði Steingrímur, að frumvarpið væri þrælmengað af því hugarfari, sem hefði ágerst undanfarin ár allt frá árinu 1991, að Alþingi sé ekkert annað en afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Þetta hafi farið versnandi með árunum.
Fyrr í dag gagnrýndu stjórnarandstöðuflokkarnir að ekki skuli vera starfandi sjávarútvegsnefnd í ljósi þeirrar stöðu, sem upp er komin eftir að Hafrannsóknastofnun leggur til að þorskkvóti verði skertur um þriðjung.
Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að flokkurinn vildi greiða fyrir frumvarpinu en sagði að það væri algerlega óeðlilega framkvæmd af hálfu stjórnarameirihlutans, að leggja fram þetta frumvarp fram nú í ljósi þess að breytingar á stjórnarráðinu eigi ekki að taka gildi fyrr en um áramót.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að ekki hefði komið upp úr pökkunum hvað í raun stæði til í tengslum við stjórnarráðið. Allir stjórnmálaflokkar væru sammála um að breytinga væri þörf á stjórnarráðinu, ráðuneytum fækkað og jafnræði yrði milli þeirra. Sagðist Guðni gera þá kröfu, að upplýst væri hvaða breytingar væru fyrirhugaðar.