Guðjón A: Jafnstöðuafli yfir 200 þúsund tonnum

Guðjón A. Kristinsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að þótt hann hefði ekki búist við því að Hafró myndi leggja til aukningu á hámarksafla hefði hann heldur ekki átt von á því að þeir gengju svo langt í skerðingu eins og raun var, hvorki á þorskstofninum né á öðrum stofnum.

Hann segir þetta mjög slæm tíðindi og að nú sé kominn tími til að fara yfir allt í sambandi við rannsóknir og uppbyggingu þorskstofnsins og það kerfi sem við höfum verið að nota til þess að reyna að byggja hér upp fiskistofnana og viðhalda þeim.

„Það eina sem stendur eftir af því er algjört árangursleysi og í raun og veru bara niðurskurðarferli öll árin síðan við tókum upp fiskveiðistjórn," segir Guðjón og bætir við að tillögurnar sem lagðar voru fram frá Hafró séu svo óraunhæfar að útilokað sé að farið verði eftir þeim, miklu nær væri að setja á einhvern jafnstöðuafla – jafnvel yfir 200 þús. tonnum, keyra það í 3 ár og fá þannig dóm á það hvort að lífríkið verði eins og Hafró hefur spáð eða ekki.

"Við erum búin að gera ýmiss konar tilraunir eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar í fjölda ára með algjöru árangursleysi og alveg kominn tími til að gefa þeim frí og gera líffræðilega tilraun, veiða stofninn og sjá hvað setur," segir Guðjón.

Einnig segir hann að það þurfi að beina sjónum að loðnuveiðum og minnka þær verulega næstu árin svo þorskurinn hafi nóga átu enda hafi hann lést og styst undanfarið og aðeins ein ástæða geti verið fyrir því – að hann fái ekki nóg æti. Hann segir miklar rannsóknir hafa farið fram við Norður-Atlantshaf og víðar og búið að stjórna veiðum á botnfiskstofnum lengi en hvergi hafi það gengið, það sjái menn ef þeir skoði Norðursjó, Grænland og Kanada. Eini stofninn sem virðist halda sér að sögn Guðjóns er í Barentshafinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert