„Þetta eru náttúrlega mjög alvarleg tíðindi sem eru í þessari skýrslu og til marks um það að okkur hefur ekki tekist eins og að var stefnt að byggja upp fiskistofnana við landið," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Spurð hvort henni finnist Hafró hafa brugðist hlutverki sínu neitar hún því en bendir á að ekki hafi verið farið eins varlega við úthlutun kvóta og hefði þurft að gera. Hún bætir við að spurningin sé hvort við höfum náð þeim árangri með þessu fiskveiðistjórnunarkerfi sem að var stefnt.
Vill Ingibjörg einnig minna á að gert hafi verið ráð fyrir því í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að gerð yrði úttekt á aflamarkskerfinu og lagt mat á það hvaða áhrif það hefur haft á fiskveiðistofna við landið og áhrif þess á byggðaþróun. Tillögur Hafró undirstriki þetta.